Inanna og Enhedúanna - heimsins elstu ljóð


InannaÁ nýju tungli, sunnudaginn 18. október kl. 16

 Guðspekifélaginu Akureyri, Glerárgötu 32, 4. hæð (gengið inn að austan)

 

Valgerður H. Bjarnadóttir fjallar um Inönnu, eina elstu þekktu gyðju veraldar, hofgyðjuna Enhedúönnu, elsta þekkta ljóðskáld veraldar, og ljóðin sem varðveita 5000 ára trú og tilfinningar .

 

 
Inanna eða Ishtar, sem kölluð var drottning himins og jarðar, var dýrkuð í Miðausturlöndum, og raun öllum þeim menningarheimi sem hin fornu stórveldi Súmería og Babýlónía höfðu áhrif á, um árþúsunda skeið.   

Hugmyndir um þessa gyðju frá því fyrir 5000 árum eru vel kunnar vegna þess að Súmerar skráðu manna fyrst hugmyndir sínar, trú og tilfinningar í ljóð sem hafa varðveist. Ljóðin sem fjalla um Inönnu eru flest hefðbundin goðsagnakvæði, sem segja sögu goða og kynjavera, og samskipti þeirra við mennska konunga og drottningar. Þau gefa því mynd af menningu þessa tíma og hugmyndum þeirra um þróun mannkyns og eðli æðri máttarvalda. Hins vegar eru ljóð Enhedúönnu, æðstu hofgyðju Súmeríu, rituð um 2300 fyrir Krist. Enhedúanna tilbað Inönnu, en þjónaði í hofi foreldra hennar, Mánaparsins Nanna og Ningal. Ljóðin eru mjög persónuleg, segja sögu hofgyðjunnar, ekki síður en gyðjunnar, eru þrungin tilfinningum. Í þeim má greina skýra, en mótsagnakennda mynd af gyðjunni, auk þess sem þau gefa mynd af samfélaginu, eftirsóknarverðum gæðum og aðsteðjandi ógnum. Enhedúanna “undirritaði” ljóð sín og er því elsta þekkta ljóðskáld heimsins, og ljóðin væntanlega einnig elstu persónulegu ljóð sem varðveist hafa. Þau fundust í fornleifauppgreftri í hinni fornu menningarborg Úr í upphafi 20.aldar, en eru þó enn vandlega varðveitt leyndarmál.

Valgerður H. Bjarnadóttir er með MA í femínískri trúarheimspeki og menningarsögu með áherslu á norræna goðafræði og gyðjutrú. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband