27.9.2010 | 16:21
Þankastrokkur á Reykjum í Fnjóskadal um helgina
Þankastrokkur var haldinn í Fnjóskadal í kjölfar fulls tungls og haustjafndægra, 24.-25.sept.
16 konur og karlar leyfðu hugsunum að fljúga, létu sig dreyma um forna visku og bjarta framtíð, þar sem forn viska er nýtt til að koma á jafnvægi á ný, milli manneskju og náttúru, milli karla og kvenna af ólíkum uppruna. Afraksturinn (Þankasmjörið) mun næra Norðlendinga og vonandi sem flesta aðra Norðurálfubúa (og jafnvel Suðurálfu líka) næstu mánuði og ná hápunkti með fjölþjóðlegum Fólkvangi: Vitið ér enn - eða hvað? Samtal um rætur, sem verður á Akureyri og nágrenni 19. - 21. júní 2011.
Verkefnið er samstarf Mardallar, AkureyrarAkademíunnar, Jafnréttisstofu, Norrænu upplýsingaskrifstofunnar, Handraðans, Menningarmiðstöðvarinnar í Listagili og fleiri, og fjallar um að leita að, skilgreina, rýna í og spinna úr og nýta menningararfinn sem gleymdur er... og vinna að því að viðhalda ýmiss konar mikilvægri þekkingu sem er að glatast.
Hugmyndin fæddist í hópi nokkurra Mardallarsystra snemmsumars 2008 á opnunarhátíð sýningarinnar Farfugl-Staðfugl og var farið af stað með viðburðaröð undir yfirskriftinni Vitið þér enn eða hvað? vorið 2009 (sjá ýmislegt um þá röð hér á síðunni).
Þau sem unnu saman í Þankastrokkinum á Reykjum um helgina komu úr ýmsum áttum, eru á ólíkum aldri og tengjast fræðum, listum og iðju ýmiss konar, enda voru hugmyndirnar frjóar.
Verkefnið er styrkt af Menningarsjóði Eyþings og ýmsum fleirum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.