11.5.2010 | 15:33
Vitið þér enn - eða hvað? Norrænn styrkur til ráðstefnu 2011
Mardöll hefur fengið vilyrði fyrir norrænum styrk, 100 þúsund dönskum krónum, til að halda fjölþjóðlega ráðstefnu á Sumarsólstöðum 2011, í menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Ráðstefnan er hápunktur viðburðaraðarinnar Vitið þér enn - eða hvað? sem er framlag Mardallar til að koma á sterkari tengingu við kvenviskuna sem býr í rótum okkar.
Viðburðaröðin sem hófst vorið 2009 heldur áfram í sumar og haust, með ótal spennandi viðburðum, námskeiðum, uppákomum, sýningum og þingum.
Ráðstefnan, sem einnig verður spennandi listviðburður, verður undirbúin í samvinnu við ýmsa aðila hérlendis og erlendis. Nú þegar er komið á samstarf við AkureyrarAkademíuna, Jafnréttisstofu, Handraðann, Norrænu upplýsingaskrifstofuna og Listasumar hérlendis og nokkrar fræðikonur, listakonur og menningarfrömuði á Norðurlöndum, en áætlað er að efna til enn víðara samstarfs á næstu vikum og mánuðum.
Fylgist með framvindunni hér á síðunni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.