Færsluflokkur: Menning og listir

Vitið þér enn – eða hvað?

Viðburðaröð Mardallar um menningararf kvenna
Verkefnið er samstarfsverkefni félaga í Mardöll – félagi um menningararf kvenna, auk þess sem efnt er til samstarfs við einstaklinga, félög og stofnanir utan Mardallar. Markmið Mardallar er að endurvekja og rækta fjölþættan menningararf kvenna hér á landi, rekja rætur hans og finna farveg í nútímanum fyrir gamla visku. Mardöll er í tengslum við einstaklinga og hópa sem vinna að svipuðum markmiðum í þeim löndum sem rætur okkar liggja helst til, s.s. Norðurlandanna og Bretlands.

Viðburðaröðin hefst á sumarsólstöðum 2009 og stendur til haustjafndægurs 2010 undir yfirskriftinni Vitið þér enn – eða hvað? sem er tilvitnun í orð völvunnar í Völuspá.  

Völuspá greinir frá því þegar Óðinn kemur til völvunnar í öngum sínum. Ragnarök eru framundan, hann hefur misst tökin í veröldinni og leitar svara hjá henni um orsakir, stöðu og afleiðingar gjörða goðanna. Hún rekur fyrir honum söguna, minnir hann á uppruna sinn og það hvernig hann hefur gefið annað auga sitt fyrir völd og sér því ekki nema hálfan sannleikann og hvernig Heimdallur, sem vernda átti goð og menn hefur gefið annað eyra sitt. Hún minnir hann á hvernig hann tók þátt í að skapa stríð í veröldinni og valdatogstreitu, hvernig hann reyndi að myrða sjálfa Gullveigu (völvuna/gyðjuna) og hvernig goðin í blindu sinni gengu eitt sinn svo langt að ætla að greiða fyrir virkisvegg með því að selja bæði Sól, Mána og sjálfa Freyju. Og hún spyr hanna ítrekað: Vitið þér enn – eða hvað?

Með viðburðaröðinni vill Mardöll taka þátt í að endurheimta forn gildi, sem setja jafnvægi manneskju og náttúru, kvenna og karla, jarðar og himins í forgrunn. Endurheimta minni um þetta jafnvægi, sem hafa mikið til fallið í gleymsku, en sem enn búa í daglegum athöfnum, í sögnum, ljóðum, myndum, dansi, leik og tónlist, í náttúrunni, í óhefðbundnum lækningum, draumum, matargerð, handverki o.fl. Konurnar sem mynda Mardöll, búa allar á Eyjafjarðarsvæðinu, austan og vestan fjarðar, í þéttbýli og dreifbýli og því er Eyjafjörður vettvangur viðburðaraðarinnar, en þátttakendur koma víða hérlendis og frá nágrannalöndum okkar.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband